el Camino - nei hættu nú.

Gat nú verið. Datt á skíðum rétt eftir áramót og sleit í sundur fremra krossband í hné og skaddaði liðþófa. Þar með dró ég þá ályktun að el Camino væri úr sögunni. Að ganga allt að 30 km á dag samfellt í um 40 daga hljómaði ekki lengur eins vel og áður. Hljómaði reyndar útilokað. Eftir mánuði af sjálfsvorkun og innilokun í vetrarríki þessa ofmetna skers, hitti ég loks engil af manni sem kann að gera krossbandsaðgerðir. Það er semsagt einn svoleiðis ennþá hér. Þar sem heimilislæknirinn minn hafði sagt mér að slíkar aðgerðir væru sjaldnast gerðar á fólki eftir fimmtugt mætti ég englinum í ham. Eins of úfinn broddgöltur spurði ég hann hvort þetta væri virkilega rétt. Nei, ekki endilega. þ<ð færi eftir ýmsu. Og eftir þreifingar, teygjur og spjall tjáði hann mér að ef ég vildi gæti hann gert á mér aðgerð en að aðgerð væri alls ekki efst á blaði fyrir fólk eins og mig. Ég væri einfaldlega of vel á mig komin. Fegin og rígmontin með niðurstöðuna fór ég heim með fyrirmæli um að æfa lærvöðvana til að halda stöðugleika á hnénu og satt að segja get ég hugsað mér nokkrar áhugaverðar leiðir til að gera það. Áður en ég yfirgaf læknastofuna spurði engillinn hvort ég væri mikið á háum hælum og ég svaraði því játandi og að það væri ekki að fara að breytast. Honum fannst það fyndið.Mér var alvara. Ég má sem sagt gera allt sem ég treysti mér til og langar að gera svo fremi að ég gæti þess að halda vöðvunum í formi, nema þá helst að hlaupa niður í móti. Og ætli ég að halda hælunum verð ég að æfa bolvöðvana líka til að verja mjóbakið, ekki síst ef ég ætla að bera tíu prósent af líkamsþyngd minni á veginum á bakinu. Til að fyrirbyggja misskilning ætla ég ekki veginn á hælum. Vegurinn er sem sagt ennþá inni en búið að fresta för þar til að ári. Stefni að því að vera þá í fantaformi en er búin að komast að því að slíkar áætlanir hafa tilhneigingu til að breytast. Nú bíð ég eftir því að þessari árans hálku, snjó og kulda linni og ég geti farið að æfa mig á Úlfarsfellinu með boxerinn minn sem fylgir mér eins og skugginn ef ég er með harðfisk í vasanum. Reyndar búið að spá kolvitlausu veðri í kvöld og nótt (hver er hissa) og Stebbi farinn upp á Esjumela að strappa niður húseiningar. Á meðan sit ég inni í hlýjunni við tölvuna og les mér til um „bed bugs“ og æfi mína takmörkuðu spænsku sem ég mun bæta til muna í spænskuskóla á komandi sumri í stað þess að ganga veginn. það mun væntanlega koma sér vel að ári.

el Camino 2. Ævintýri á gönguför

 El Camino 2.

 „If you think adventure is dangerous, try rutine, its lethal". (Paulo Coelho).

Held að Coelho hafi rétt fyrir sér. Skrýtnar og skemmtilegar venjur í lífi fólks geta gert það bæði innihaldsríkara og fallegra, en líf sem hinsvegar stjórnast af vana er í mínum huga ekki einasta óheilsusamlegt heldur beinlínis lífshættulegt. Eða eins og Jón Björnsson vitnar til í bók sinni  Á Jakobsvegi  þegar hann lýsir svipuðum þönkum;  „ Menn verða ekki lengur úti milli bæja, því menn verða inni milli veggja". Orð að sönnu. Fátt hrellir mig jafnmikið og tilhugsunin um líf sem stjórnast af vana. Ég held að gegn honum sé besta vörnin að fara reglulega burt úr hlaðinu heima hjá sér og reyna eitthvað alveg nýtt. Eitthvað sem ögrar hugmyndum okkar um okkur sjálf og lífið yfirleitt, ekki síst hrokafullum hugmyndum um að allt sé best á Fróni. Einhver spekingurinn sagði að ferðalög væru eins og ástin að því leyti að á meðan við erum ástfangin værum við vökulli, hugrakkari og móttækilegri fyrir því að taka breytingum. Þannig held ég að best sé líka að lifa - og eldast. Með skilningarvitin þanin, forvitnina í hámarki, þor til að gera það sem manni finnst áhugavert og dreymir um og æðruleysi gagnvart þeim breytingum sem það kann að hafa í för með sér. Stebbi minn dregur ekki úr mér þrátt fyrir að finnast  þessi 780 km sjálfspína á stígnum alveg glórulaus og reyni varlega að stinga upp á því aftur að keyra mig. Og eins og honum einum er lagið sagði hann svo á dögunum „OK, fyrst ég get ekki talið þig af þessu er eins gott að taka þátt í þessu. Ég kem með þér síðustu 100 kílómetrana." Þannig var það ákveðið að hann fljúgi til London og þaðan til Santiago og hitti mig í bænum Sarria á síðustu dögum næsta júnímánaðar þaðan sem við töltum svo síðasta spölinn til hinnar helgu borgar Santiago de Compostela. Gulrótin fyrir Stebba er loforð um tveggja vikna letilíf, sól og sælu  í kjölfarið suður í Andalúsíu, berfættur og bakpokalaus og  í friði fyrir sífelldri óþreyjunni í mér!  Líklega hef ég lofað upp í ermina á mér.

Já, ég er heppið blóm. Ég á nefnilega líka einstakan  tengdason sem nær þessu alveg. Og eftir smá spjall hér í Bjargó ákváðum við að hann flygi  með mér út og fylgdi mér fyrstu dagleiðina frá Jean Pied de Port í Frakklandi til Ronchesvalles á Spáni. Svo færi hann til baka heim en ég héldi áfram. Þessi dagleið liggur um óbyggðir  vestarlega í Pýrenea-fjallgarðinum og er um 27 kílómetrar með umtalsverðri hækkun þar sem allra veðra er von árið um kring og auðvelt er að villast. Þetta er eini hluti vegarins  sem mér líst ekki sérlega vel á að fara ein. Það er bæði falleg og notaleg tilhugsun að þetta yndi fylgi mér úr hlaði. Sakar ekki að hann er vanur bootcamp-þjálfari og getur rekið mig áfram ef ég er eitthvað að væla. Vonandi gengur þetta allt eftir. Get ekki ímyndað mér betri leið til að ramma þennan labbitúr inn í báða enda.  

 

 

 

 

 


Farin!

                                                  Nákvæmlega. Ég er farin! Reyndar bara í huganum en það er góður staður til að hefja ferðina sem mig hefur dreymt um að fara í mörg ár. Að ganga el Camino de Santiago de Compostela eða Jakobsstíginn frá St. Jean Pi de Port þorpinu í suður-Frakklandi, yfir hæðir Pýrenea-fjallgarðsins  og eftir endilöngum Norður-Spáni til Santiago de Compostela. Sjöhundruð og áttatíu kílómetra. Reyndar heilir níu  mánuðir þangað til ég fer. Þarf að undirbúa mig vel og koma mér í gott gönguform. Stebbi horfir á mig eins og ég sé ekki með öllum mjalla og spyr hvort það sé ekki hægt að keyra þetta.  Segist verða þreyttur í fótunum bara á að heyra þetta. Og til hvers að labba alla þessa leið???  Er ekki hægt að fara styttra???  Stebbi heldur að ég vilji bara ganga  ákveðna vegalengd og ná á tiltekinn áfangastað til að reyna mig. En ég hef fyrst og fremst  áhuga á að vera á sjálfri leiðinni. Finna frelsið sem fylgir því að láta ráðast hvað gerist og hverjir verða  á vegi manns, - mæta því með opnum huga, takast á við sjálfan sig og ögrandi aðstæður -og njóta sigranna. Góðum vini mínum fannst lítið til koma þegar ég sagði honum frá. Sagði að þetta væri túristaleið, full af fólki sem honum finndist vægast sagt óspennandi. Hann kysi óspillta náttúru í friði fyrir fólki og honum finndist hvort eð er hann sjálfur langskemmtilegasti maður sem hann þekkti. Og þar sem hann er ekki sérlega gefinn fyrir að hitta fólk verða sennilega ekki margir til að mótmæla því.

 Sjálf lít ég svo á að fólk sé hluti af náttúrunni og að innan þeirrar flóru sé hægt að finna bæði berangur og gróin lönd.  Það útsýni sem maður fær á veröldina við kynni af alls kyns fólki er í mínum huga síst verra en af hæstu fjöllum. Og skemmtilegast ef hægt er að njóta hvors tveggja í senn. Mér finnst fólk almennt áhugavert og öllu jafna vænt um það. Og samneyti fólks á el Camino er öðruvísi en annars staðar er mér sagt. Hver og einn hefur sínar ástæður fyrir för sinni og  ber sinn eigin andlega farangur. Og allir vita það. Og virða það. Jafnvel deila því og taka þannig  þátt í för hvers annars. 

Svo á meðan vinur minn skemmtir sér við að tala við sjálfan sig ætla ég að njóta spænskrar sveitasælu og sitja sárfætt og sæl um síðdegi á heimilislegum útikaffihúsum í lítt þekktum þorpum Norður-Spánar „peoplewatching" og jafnvel „mingling." En þangað til mun ég sætta mig við að ferðast þangað á netinu, undirbúa töltið með gönguferðum í garranum hér heima, ylja mér á  baskalands- sól í flösku á köldum vetrarkvöldum og láta mig dreyma. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband