Styttist í brottför

Undanfarna daga hef ég verið að undirbúa heimför. Pakkað bókum og sent í pósti heim, pakkað niður fötum og dóti sem ég þarf ekki að nota þangað til ég fer og undirbúa hug og hjarta undir að yfirgefa þennan stað. Það er ekki svo auðvelt. Hef svo lagst í dálítið af ferðalögum til að sjá staði sem Stebbi minn myndi alls ekki nenna að þvælast með mér á hvort sem er. Greiði fyrir okkur bæði held ég ef og þegar við komum hingað aftur. Ákvað einn daginn að hoppa upp í rútu og taka mér tvo daga í að skoða Cordoba og Sevilla. Sé ekki eftir því en lenti í smá veseni í Cordóba þar sem ég hafði ekki hugsað út í að taka vegabréfið mitt með og hótelið neitaði mér þess vegna  um gistinguna sem ég hafði bókað. Halló - ég er bara Íslendingur og við erum ekki vön því að þurfa að vera gera grein fyrir okkur alls staðar. Eddie, skoski nágranni minn  hristir bara hausinn og segir "stop being so blonde". Eftir að hafa sent lögregluna óvart á dyrnar hjá þeim til að staðfesta að þau þekktu mig og hefðu leyfi til að fara inn í íbúðina mína og ná í vegabréfið, OG- eftir að hafa fengið utanríkisráðuneytið heima til að fara í málið, fékk ég að lúra á þessu einstaklega sæta tveggja stjörnu hóteli yfir nóttina. Mínir elskulegu skosku nágrannar voru ekki hrifnir þegar þeir komu til dyra og mættu lögreglunni (hmm, wonder why). Allavega. Cordoba æðisleg en báðar borgir bera nafn með rentu en þær eru gjarnan kallaðar "the frying pan of Andalucia". 42 gráður fyrri daginn og seinni daginn eitthvað svipað, en örlítill andvari þá bjargaði málum.

Þegar ég lít yfir þennan mánuð hef ég gert og séð margt mjög skemmtilegt. Byrja á messudegi sem var hér um miðjan mánuð en þá voru göturnar hér í þorpinu skrýddar með ´blómstrandi neríum sem maður gekk á. Blómum skreytt altari voru sett upp hér og þar og kvenfólkið klæddist flamenco-kjólum með blóm í hárinu og opnir hestvagnar og kerrur voru skreytt og keyrt með þetta prúðbúna fólk um göturnar. Þá voru karlmennirnir uppáklæddir í flamenco-kúreka-"outfitti" með hatta og læti og riðu hestum í hópum um göturnar. Svo er einhver siður í kringum þessa helgi að hengja út á svalirnar fallega blúndudúka í öllum litum. Það er ótrúlega skemmtilegt að sjá þá blakta eins og fána utan á húsunum.

Á jónsmessunni upplifði ég svo annað mjög skemmtilegt. Fór með Norðmönnum niður á strönd um kvöldið og sá hvað innfæddir og auðvitað aðfluttir íbúar líka höfðu tjaldað og  kveikt lítið bál fyrir utan hjá sér í sandinum og grilluðu, spjölluðu eða dönsuðu og sungu eða bara eitthvað annað. Alvöru þjóðhátíðarstemmning meðfram allri ströndinni og fólk svaf þar yfir nóttina. Á miðnætti var magnað að sjá hvar fólk kom undan tjöldunum og gekk niður í flæðarmálið og út í sjó til að hreinsa sig. Siðurinn er að þvo fætur, hendur og andlit sem á að tákna einhverskonar andlega endurnýjun. Að horfa á eftir fólki í myrkrinu ganga í sjóinn í hópum eins og einskonar uppvakninga  var næstum því svolítið "creepie". Ótrúlega skemmtilegt að taka þátt í þessu og auðvitað fór ég í sjóinn líka. Sagt er að það megi sjá eldana loga eftir allri ströndinni á Spáni þessa nótt sem er eina skiptið á árinu sem leyfilegt er að kveikja eld þar. Eftir að hafa legið á bakinu í sandinum og horft til stjarnanna í dálitla stund og borðað fisk að hætti innfæddra á ströndinni í góðum félagsskap, var farið heim en skemmtunin hélt áfram til morguns er mér sagt.

Ég fór líka á flakk upp til fjalla og heimsótti pínulítið þorp sem samanstendur af um tuttugu húsum og einu litlu veitingahúsi. Þetta þorp er kallað týnda þorpið vegna þess að Franco hrakti íbúana burt á sínum tíma því hann taldi víst að þeir væru að skjóta skjólshúsi yfir uppreisnarmenn sem hann hafði gert útlæga. Byggðin lagðist af vegna þessa en fyrir áratug eða svo tóku afkomendur íbúanna sig til og endurreistu þorpið. Dásamlega fallegur lítill staður, falinn uppi í fjöllum fyrir ofan Frigilliana, hundgömul kelling sem eldar einstaka kássu sem er fræg hér á svæðinu og svo eru hestar bundnir fyrir utan veitingahúsið eins og í villta vestrinu. Mjög gaman að koma þarna.

Anyways. Framundan er kveðjupartý hjá Co og Eddie en þau eru að fara á flakk á hippa-volkswagen rúgbrauðinu sínu un Skotland og England á miðvikudaginn kemur og um leið er ég að kveðja þau því ég fer héðan á sunnudagsmorgun eftir viku. Mun sakna þeirra sárt. Ætla að nýta þessa síðustu viku hér í að pakka og þrífa en fyrst og fremst reyna að sjá eitthvað meira hér í kring. Er þó ákveðin í að eyða síðasta deginum mínum  í Nerja sem er yndislegur bær í tíu mínútna fjarlægð héðan. Búin að fara oft þangað og fæ aldrei nóg. Hef líka þvælst ótal sinnum til Malaga og á eftir að sjá svolítið þar til viðbótar. Reyndar finnst mér vænst um miðborg Malaga af þeim stöðum sem ég hef verið að þvælast á. Fráleitt að vanmeta Malaga. Yndislega falleg, aðgengileg og skemmtileg miðborg sem hefur allt; frábæra baðströnd, smábátahöfn með dásamlegum veitingastöðum, siglingamöguleikum um Malaga-flóann, fínar verslanir í frábærri göngugötu, sætar litlar þröngar hliðargötur, útikaffihús, götulistamenn, söfn og leikhús að ógleymdri dómkirkju sem er mögnuð af stærð og gerð. Borg sem allt of margir sniðganga. Vantar bara beint flug að heiman hingað.

 Ég mun svo auðvitað sitja á torginu á sunnudagskvöld í góðra vina hópi og láta eins og ég sé að horfa á fótboltann voða spennt. Finnst nú meira gaman að horfa á fólk horfa á fótboltann, svo ekki sé minnst á sjálfa leikmennina Tounge. Spennan  nú þegar sjáanleg hér. ´Spænski fáninn blaktir utan á nánast hverju húsi. Ég ætla ekki að missa af þessu. Ætla að blogga aftur áður en ég fer endanlega. Adios amigos.


Furðuvikur að baki. Loksins allt með kyrrum kjörum.

Jæja, þá er Baku-ævintýrið búið og vikudvölin hans Stebba hér í Torrox liðin. Ég verð að segja að ferðin til Azerbajan var dálítill þroskaleiðangur fyrir mig því ég þurfti að takast á við ýmislegt sem ég átti engan veginn von á. Ef til vill best að byrja í Torrox á leiðinni út á flugvöll. Sjarmatröllið hann Eddie nágranni minn keyrði mig út á völl. Ég hafði keypt mér pínulitla skærbleika glansandi ferðatösku því ég vildi bæði hafa lítið með mér og eins vildi ég þekkja töskuna sem fyrst úr á færibandinu. Nú og svo auðvitað langaði mig bara í bleika tösku. Þegar Eddie sá töskuna og tók að rúlla henni kvenlega á eftir sér út á bílastæði (sem er dálítil leið að fara) sagðist hann vera feginn að þorpsbúar væru fæstir komnir á stjá til að sjá til hans. Kvaddi svo þennan dásemdarmann úti á flugvelli sem lagði mér bróðurlega lífsreglurnar. Allt gekk að óskum þar til ég kom til Istanbul. Þar kom til móts við mig maður frá leigubílafyrirtæki á flugvellinum og bauð mér ódýrt far með shuffle-bíl inn í Istanbul sem er 40 mín. keyrsla. Ég þáði það og hann tók bleiku töskuna mín og rúllaði henni á eftir sér. Ég fór að hlæja. Þessi óborganlega karlrembulega daðurdrós leit nefnilega á töskuna og sagði kankvís; "Æ dónt vörí. Nóboddy thinks æ em gei. Æv got a repjúteisjón". Hmmm. Einmitt það já. Ég var fegin að komast í bílinn og sat frammí hjá bílstjóranum sem var ósköp indæll. Þangað til hann sagði; "dónt vörí. Maxímum þörtí minúts tú senter. Maxímum. Æm a fast dræver", endurtók hann svo stoltur. Ég hélt ég kæmist alls ekki lifandi á hótelið því það reyndust orð að sönnu. Ég var komin út á götu kl tíu næsta morgun til að skoða mig um í miðborg Istanbul en ég átti ekki flug til Baku fyrr en seint um kvöldið. Istanbul er æðisleg. Ofboðslega fjölmenn, umferðin hrikaleg, karlarnir ekki bara ágengir heldur nánast árásargjarnir, jafnvel gagnvart miðaldra ljóshærðum kellingum. Það var reyndar ekki svo voðalega æðislegt þó það hafi stækkað egóið í nokkra klukkutíma. (Eitt strákkrílið kom bókstaflega inn í mátunarklefa til mín og vildi hálpa mér í og úr og fá borgað í einhverju öðru en peningum ef ég hefði hug á að kaupa það sem ég var að máta). Konurnar eru almennt ofboðslega fallegar, vel klæddar og snyrtar og hvergi vildi ég frekar vera í verslunarferð. Tískuvarningur er bæði frekar ódýr og mjög fallegur. Best af öllu var þó maturinn. Hvergi hef ég fengið betri mat. ég fór á Grand Bazar sem er markaður í gamla hluta borgarinnar, troðfullur af fólki og allur hugsanlegur varningur til sölu. það var mjög gaman að koma þangað. Síðan ráfaði ég in á torg fyrir framan mosku rétt hjá Bláu moskunni til að taka myndir og var næstum kominn inn á illa merkt salerni inni í einskonar garði þar sem karlarnir sátu í röð á kömrum og spjölluðu saman eða lásu blöðin. Ég fékk illt auga frá þeim og forðaði mér hið snarasta. Á leiðinni til baka á hótelið ákvað ég að taka beygju og fara niður að sjó. Sé aldeilis ekki eftir því. Kom niður á fiskmarkað við bryggjuna og einn fisksalinn rétti mér lifandi humar í hendurnar og tók af mér mynd. Bauð mér svo að koma inn á veitingastaðinn hans þar fyrir innan og þiggja tyrkneskt kaffi. Það var meiriháttar gaman að koma þarna. Þrír gaurar snerust í kringum mig með stól sem þeir settu neðst niður við bryggjuna og með kaffibollann minn og sá þriðji með hnetur í skál. Þarna sat ég í klukkutíma og horfði á bátana og fuglinn í kyrrð sem var í hrópandi mótsögn við erilsama götuna sem ég hafði gengið frá um morguninn. Ógleymanleg stund. Þurfti ekkert að semja um gjaldmiðil þar.

Jæja, til að gera langa sögu stutta þá fór ég út á völl um kvöldið og þá kom í ljós að ég var ekki með útprentað vísa til Baku því það hafði gleymst að senda mér það. Og reyndar Stebba og Ella líka sem ætluðu að hitta mig á flugvellinum innan skamms. Mér var gert ljóst að hvorki ég né þeir færu í flugið án þess. síðan kom jafnframt í ljós að flugið sem ég hafði pantað var deginum áður. Þetta þýddi að ég þurfti að leita uppi konu í Baku sem átti að senda mér vísað (auðvitað með hjálp systur minnar sem getur reddað nánast öllu), fá það sent í snarhasti á e-mail og prenta það út á flugvellinum og svo auðvitað að breyta flugmiðanum mínum. Sem betur fer var pláss í vélinni. Annars veit ég ekki alveg hvað ég hefði gert. Fékk vísa fyrir okkur öll þrjú og hitti strákana klukkutíma áður en vélin fór af stað. Ég hafði ekki einu sinni tíma til að vera flughrædd. Þegar við komum til Baku var tekið á móti okkur með einkabílstjóra sem kom okkur heim á hótel og - Jesús minn hvað það var góð lending.

Baku er yndisleg blanda af evrópu og asíu, nútímaleg borg en um leið varðveitir hundgamlan borgarhluta vel. Þar ráfuðum við um í nokkra daga milli undankeppninnar og lokakvöldsins og fórum á hefðbundna matsölustaði, frábært gamalt tehús og gamaldags útimarkað. Hef aldrei hitt vinsamlegra fólk en þarna. Ókunnugt fólk stoppaði okkur öll margsinnis til að spyrja okkur hvað okkur þætti um Baku og óskaði okkur góðrar dvalar. Notalegt. Allt gekk út á júró þessa daga og ég er fegin núna að hafa ekki vitað um áætluð hryðjuverk í Kristalshöllinni sem komu í ljós nú á dögunum. Mannréttindaumræðan hér heima setti mark sitt á lokakvöldið hjá Gretu minni en við vissum lítið um hana fyrr en við vorum farin. Ég dáist að henni fyrir að halda haus við flutninginn eftir að vera nýbúin að lesa óhróðurinn sem gekk yfir hana í netheimum hér heima. Það er auðvelt að vera mannréttindasinni heima í sófa á afar hæpnum þekkingarforsendum og fussa yfir því að aðrir fylgi ekki hugsjónunum eftir. Fæstir þessara svokölluðu mannréttindasinna höfðu fyrir því að kynna sér að flytjendur voru samningsbundnir um að skipta sér ekki að pólitískum átökum í landinu. Nóg um það. Yndislegur hópur sem stóð saman í keppninni frá A til Ö og gaman að vera með þeim.

Stebbi minn kom svo með mér til baka til Torrox. Hefur legið á sólbekknum mestan tímann og sofið, verið latur að hreyfa sig um en við fórum þó upp í Sierra Nevada og skoðuðum skíðasvæðin þar. Mjög gaman. Hann var alls ekki tilbúinn að fara heim þegar að því kom og kvaddi mig með þeim orðum að hann væri viss um að hann ætti eftir að koma hingað aftur. Ég sakna hans og stelpnanna. En mikið er gott að vera einn og sjálfur líka og geta ráðið sér og ferðum sínum  að öllu leyti. Sit sem stendur við skriftir, enda skýjað og ég sólbrennd í framan eftir 30 gráður í gær. Tíminn líður allt of hratt. ég á eftir að vera í mánuð hér og er alls ekki tilbúin að fara.


Næturbrölt

Já, var það ekki! Endaði á bráðadeildinni hér í morgun, orðin dálítið skelkuð yfir ástandinu. Erfitt orðið að anda og búin að vera í stanslausu hóstakasti í þrjá sólarhringa með tilheyrandi svefnleysi, lystarleysi, stoðkerfisverkjum, hausverk og ógleði. Auk þess með hitavellu og eyrnabólgu eins og litlu krílin alla undanfarna viku. Held þó að magavöðvarinir hafi styrkst svolítið í hóstaköstunum sem gerir mig ofurlítið upplitsdjarfari þegar ég hugsa um væntanlegar bikinistundir á ströndinni. Kannske lagast svolítið mittismálið? Ekkert á vísan þó að róa þar upp úr fimmtugu er mér sagt. Var greind með bronkítis og í astmakasti, fékk dásamlega sterasprautu í rassinn, "friðarpípu" í háftíma og resept upp á fjórar tegundir af lyfjum, alla þessa dásemd af hálfu "doctor handsome"  eða ("töfra-læknisins"í beinni þýðingu) sem þrátt fyrir góða menntun og færni á sviði bráðalækninga, kunni tæpast stakt orð í ensku. Ég bara skil ekki hvernig þetta er hægt í heiminum í dag.  Nóg um það. Eftir klukkutíma fór Eyjólfur heldur betur að hressast og skellti sér í sólbað og tók lífinu með ró á meðan öll súpan byrjaði að virka.

Eftir síðbúinn yndislegan tapas á torginu í kvöld fór ég heim, átti yndislegt samtal við Sebba minn en svo gerðist það sem ég reiknaði með. Sterarnir leyfa mér ekki að verða syfjuð. Og þá var ekki um annað að ræða en að drífa sig í "geðspítalagallan" sem Stebbi kallar bleiku flannels-náttbuxurnar mínar, skella yfir sig gollu, hella mér hálft rauðvínsglas (af því að liturinn fer betur við flauelsnóttina en hvítvínsliturinn) og setjast út á svalir. Algert brill! Leðurblökur á ljóshraða í kringum mann, samfelld krybbyhljóðin, óþolandi hundgáin sem aldrei þagnar og hljóðin í geitabjöllunum úti í myrkrinu. Haninn hefur tekið sér bjútíblund og safnar kröftum fyrir gólið sem gjarna byrjar um miðjar nætur og hann vill alls ekki að neinn þorpsbúinn missi af. Fullt appelsínugult risatungl og stjörnubjart. Og til að njóta alls þessa til fulls, skellti ég mér upp á terrasóið á þriðju hæð, lagðist á sólbekkinn og horfði til himins. Sömu stjörnur og sama tungl og heima. Og þarna hitti ég sjálfan Guð eins og oft áður og átti langt spjall við hann um tök og mistök dagsins, líf mitt hér í Torrox og líf mitt heima og bað hann svo lengst allra orða að vera með okkur öllum í hverju skrefi í væntanlegri Bakuferð og passa fólkið mitt heima þangað til. Þakkaði svo pent fyrir mig og mína og bað þess ef hann gæti að láta nágrannakonuna mína ekki hætta að syngja við heimilisstörfin á morgnana. Myndi ekki vilja missa af því. Ekki ennþá orðin syfjuð kl. tvö þegar ég skrifa þetta. Það er í lagi! Ég get sofið þegar ég verð gömul.


Gestkvæmt og gaman.

Hef átt yndislegan tíma með Huldu sys, Siggu æskuvinkonu minni og Vilborgu samstarfskonu og vinkonu sem hafa komið til skiptist hingað undanfarnar þrjár vikur. Það er líka svo dásamlegt hvað þær allar hafa verið ánægðar með umhverfið hér. Meira að segja Laufey litla, þrettán ára stýrið gat ómögulega látið sér leiðast með okkur kerlingunum. Við höfum vaðið sjóinn, legið í sólbaði, puntað okkur, borðað dýrindis mat og gleymt okkur við "girly talk" á kvöldin, stundum langt frameftir nóttu. Það hefur því minna verið unnið hér þennan tíma. Fór þó´á bókasafnið niðri á Costa þegar ég þurfti.

Það leið vika frá dvöl Huldu þar til Sigga kom. Í millitíðinni voru páskar og það var magnað að fylgjast með og taka þátt í helgigöngunum hér, bæði að skírdagskvöldi og á páskadagsmorgun. Frá páskum hefur smám saman verið að fjölga fólki hér í þorpinu og þjónusta öll að aukast. Nú er kominn ísbar, sólhlífar yfir kaffihúsunum, meira setið þar á kvöldin og það sem er best er að nú kemur gamall maður með nýbakað brauð á dyrnar hjá mér á morgnana sem hann selur fyrir hálfa evru.Ég set peninginn undir vatnsflösku sem stendur á þröskuldinum hjá mér og hann hengir brauðið í poka utan á hurðarhúninn . Ef ég gleymi peningnum fæ ég samt brauðið og borga tvöfalt næsta dag.

Meðan Sigga var hérna bauðst Norðmaður sem við Hulda systir kynntumst þegar hún var hér, til þess að fara með okkur einn eftirmiðdag og sýna okkur um hér austan við Nerja. Hann fór með okkur á yndislegan stað niður við smábátahöfn sem ég man ekkert hvað heitir og við borðuðum þar. Hann vildi ekkert þiggja í bensínkostnað eða taka neina greiðslu fyrir svo við buðum honum daginn eftir á el Figon sem er lítill fallegur garðveitingastaður hér í þorpinu. Fallega gert af honum. Sigga og Vilborg kynntust náttúrlega Eddie og Correen og við eyddum tíma með þeim. Laufey var boðin til þeirra einn morguninn til að baka muffins með Co. Þau eru engum lík.

Eddie keyrði Vilborgu út á flugvöll þegar hún fór á föstudaginn var og ég flaut með því ég var á leið til Tarifa að hitta Gínu mágkonu mína sem er þar á spænskunámskeiði. Við höfðum mælt okkur mót á kaffihúsi í Tarífa sem við hvorugar höfðum hugmynd um hvar var en reyndist nánast við dyrnar hjá henni. Við áttum frábæran tíma saman þessa helgi. Fórum til Marokko á laugardeginum í grenjandi rigningu og kulda og á sunnudeginum fórum við til La Frontera sem er fallegt lítið þorp sem stendur uppi á kletti. Með í för þangað var Oki sem er samnemandi Gínu í Tarfia og hann var á bíl. Yndislegur hugsandi og fallegur strákur. Gaman að vera þarna saman og fara að borða lengst uppi í hæðunum á stað þar sem mætti okkur arinneldur og hvít-dúkað borð. Allt svo fallegt. Þau keyrðu mig svo á rútustöðina þar sem ég flaug á hausinn með mínum einstaka þokka og hruflaði mig alla. Jæja, en nú ligg ég undir teppi, stútfull af kvefi, með hita og alles og vorkenni mér. Í gær fyrsta maí var hátíð hér í bænum þar sem allir íbúar komu saman, dönsuðu, sýndu flamenco, átu og drukku og spjölluðu. Meiri háttar gaman. Karlmennirnir hrærðu í risapotti á hlóðum þar sem verið var að elda paellu og siðan fengu allir sem vildu að borða. Fólk fór ýmist eitt eða í pörum út á gólf og dansaði og söng af hjartans list. Og þegar maður sér það hugsar maður; aldrei geta Íslendingar verið svona. Bældir og leiðinlegir á flestum samkomum þar til þeir verða fullir. Þá verða þeir ekki bældir, bara leiðinlegir.  Eftir hátíðina fór ég heim og fann að ég var orðin lasin. Þegar ég var komin á náttbrókina kom Co til mín og heimtaði að ég kæmi niður til þeirra og borðaði grænmetislasagna sem hún er fræg fyrir. Ég fór með henni á brókinni og bol, lét setja yfir mig teppi á veröndinni þeirra og bera í mig frábæran mat eins og alltaf hjá þeim. Dásamlegt fólk. Eftir margra tíma kjaftagang fór ég svo undir sæng, drullulasin.


Gestir og gangandi

Svölurnar eru komnar. Þær steypa sér hér yfir húsum og torgi og það er gaman að horfa á þær. Peter sá spænski sem rekur kaffi Aries, segir mér að þetta sé sérstakur vorboði hér. Og fleira minnir á vorið. Á ströndinni eru þungavinnuvélar að bera sand allan daginn í sorfna ströndina fyrir ferðamennina sem koma hér um svipað leyti og svölurnar. Páskaleyfið er framundan. Og það má merkja það á ýmsu öðru. Til dæmis hefur fjölgað fólki í húsunum í þorpinu. Og það fór sannarlega ekki framhjá systur minni sem gisti hjá mér í fimm daga. Hún svaf tæpast hér fyrstu nóttina fyrir ástarleikjum hjónanna í næsta húsi sem voru komin hingað í páskaleyfi og augljóslega búin að steingleyma hversu hljóðbært er hér milli veggja allsstaðar. Ferðaþjónustuvertíðin er greinilega hafin því búðir og veitingahús opna hér hvert af öðru þessa dagana eftir lokunina í vetur. Í dag er pálmasunnudagur, fyrsti dagur "Semana santa" eða dimbilvikunnar eins og við köllum hana. Fjölskyldurnar spænsku klæddu sig upp, fóru í kirkju og bæði börn og fullorðnir báru olífugreinar um göturnar. Undirbúningur undir helgigöngurnar er á fullu og þær verða á fimmtudagskvöld og til sunnudagskvölds. Hlakka til að taka þátt í þeim og taka myndir auðvitað.

það hefur margt skemmtilegt skeð síðan ég skrifaði síðast. Ég hef verið boðin í hvert húsið á fætur öðru, aðallega til Norðmanna og Svía sem búa hér hluta úr ári. Arne og Mette sem eru eigendur hússins sem ég leigi, búa hér í hæðunum fyrir ofan þorpið eða campo eins og þær eru kallaðar, buðu mér einu sinni til sín í matarveislu sem var ótrúlega skemmtileg og svo buðu þau okkur sys með í veislu til vina þeirra sem var ekki síður skemmtilegt. Mikið hlegið, sungið og borðaður matur af sænskum sið. Þá var mér líka boðið í hús hér rétt hjá til norskra hjóna sem vissu af mér gegnum Arne og Mette og þar með var ég komin í hóp frábærs fólks sem hefur yndi af mat, drykk, sögum og söng og hef farið með þeim margt skemmtilegt. Co og Eddie hafa verið á þvælingi í Bretlandi á nýja "gamla" hippa-wolksvagen-rúgbrauðinu sínu og voru að koma heim fyrir stuttu og nú er ég boðin í mat í bakgarðinn þeirra um miðjan dag á morgun ásamt nokkrum vinum þeirra.

Skemmtilegast var þó að fá átta frábærlega skemmtilega Íslendinga hingað í þorpið í nokkra daga og fara með þeim í dagsgöngu upp í Sierra-Nevada fjöllin fyrir ofan Granada þar sem við þræddum stíga um dali og gil milli þriggja þorpa sem liggja efst í hæðunum undir fjöllunum. Ævintýraleg ferð í góðum hópi og dagurinn allur ógleymanlegur. Í gær fór sys aftur heim eftir fimm daga dvölina hér og við áttum yndislegan systratíma saman. Þvældumst til Malaga, Nerja, Torrox Costa og Frigiliana saman og nutum hverrar mínútu. Þekkjum hvor aðra svo þægilega vel til að líða vel saman. BARA dásamlegt. Þar sem plássið mitt fyrir myndir hér á blogginu er búið, set ég myndir af þessu öllu á facebook en slóðin er:

http://www.facebook.com/media/set/?set=a.2892142191850.2114396.1509129640&type=1&l=d06aa029b1

ólífur með steinum.

Langt síðan ég hef bloggað en er endalaust að upplifa eitthvað skemmtilegt. ætla að gefa mér tíma á næstu dögum til að skrifa eitthvað af því hér inn en læt í bili duga litla frásögn ´sem mér finnst skemmtileg þó einföld sé.

Var stödd hjá Margarethe á minnsta pub í Evrópu fyrir skemmstu. Auðvitað í félagsskap sænskra og norskra. Þá kemur inn spænskur ávaxtabóndi í þeim erindum að gefa Margarethe avocado- ávexti frá búgarðinum sínum og fá a.m.k. eitt bjórglas í staðinn.Margarethe hafði sett ólífur í skál á borð fyrir gestina sem sækja staðinn og þegar sá spænski kom var honum samstundis rétt skálin og boðið að smakka. Hann horfði með vanþóknum ofan í skálina og sagði eitthvað á þessa leið: "Ólífur með engum steini eru ekki ólífur. Ég vil þær ekki". Eftir svolitla stund fengum við hann til að útskýra afhverju hann vildi frekar ólífur með steini. Þá sagði hann okkur með viðeigandi látbragði að steinninn væri til að hreinsa tennurnar. Með því að velta steininum í munninum hreinsuðust tennurnar og þannig hefði ólífan ekki bara það hlutverk að vera fæða. Hún var jafnframt tannbursti fyrri kynslóða. Og síðan horfði hann aftur ofan í skálina með steinlausu ólífunum og hristi hausinn framan í okkur aulana sem vildum absalut þær steinlausu. Svo horfði hann brúnum biðjandi augum á Margarethe sem skildi hann samstundis og fyllti á bjórglasið hans. Þegar hann var búinn með það, dróg hann upp appelsínur úr vösum sínum og gaf hverju og einu okkar að skilnaði. Dásamleg stund sem situr eftir í minninu eins og margar aðrar svipaðar hér.


Margt krúttlegt og skemmtilegt sem verður á vegi manns í Torrox pueblo

Ég er alltaf að uppgötva eitthvað nýtt hér. Undanfarna daga hef ég til dæmis áttað mig á því að ef ég vil komast í snertingu við fjölskyldulíf innfæddra er gagnlegt að fara á hárgreiðslusstofurnar. Fór á eina í gær að láta særa á mér hárið. Mér var sagt að koma kl. 10 og þegar ég mætti stundvíslega voru fimm rosknar konur mættar á undan mér sem þurftu allar að fá lit í rótina, klippingu og tilheyrandi. Og þær  komu örugglega ekki síst til að hittast og spjalla saman. Hárgreiðslustofunni var skipt í tvö hólf. Hið fremra, þegar maður kemur inn var hárgreiðslu-og rakarastofa karla. Þar fyrir innan var svo hárgreiðslustofa kvenna.  Ég vissi að það þýddi ekkert annað en að bíða þolinmóð, var vísað til sætis í sófa innan um allar kerlingarnar og ég komst að klukkan rúmlega ellefu. Þá voru þær búnar að tala látlaust, taka upp handavinnuna sína og sýna hverri annari og tala um mataruppskriftir eftir því sem ég gat ráðið út frá minni takmörkuðu spænsku.  Svo birtist allt í einu til viðbótar röggsöm amma, mamma og fjórir krakkar með sparibúninga í plasti úr fatahreinsuninni, drógu hverja spjör af krökkunum þarna fyrir allra augum og mátuðu búningana á þau. Og það voru sko engin smá læti á meðan. Allir töluðu í einu, klöppuðu og hrópuðu, nema drengur sem hafði komið með og var að vinna heimavinnuna sína í landafræði í sófanum hjá mér. Hárgreiðslustofan er greinilega ekki bara hárgreiðslustofa, heldur samkomustaður þar sem allt getur gerst og þar sem allt fréttist. Sá eftir því að vera ekki með myndavélina með mér.

Kvenna- og karlamenningin hér virðist vera vel aðgreind. Konurnar hittast saman víða um þorpið með börn og barnabörn og sjá um húsin á meðan karlarnir vinna, hittast í Tapas og bjór eða léttvín í hádeginu á kaffihúsunum eða bekkjunum á torginu til að ræða pólitík og landsmálin og halda svo aftur til vinnu.

Rakst hér á vel falið pínulítið kaffihús fyrir ofan torgið þar sem glaðlegur ungur strákur selur kaffi og morgunmat. Ekkert annað. Þarna koma ekki ferðamenn að öllu jöfnu er mér sagt. Bara spánverjar. Skilst að morgunmaturinn sé helst einskonar smjördeigsrúllur sem dýft er ofan í súkkulaði með kaffinu. Einhvers konar útgáfa af crossant með súkkulaði. Ekki slæmt. Prófa það kannske einhverntíma.

Svo fann ég líka vel falda bóksölu í einu íbúðarhúsinu í götunni hér fyrir neðan sem selur enskar bækur af öllum sortum og er svona "mini"-útgáfa af Bóksölu Braga. Staflar af bókum hingað og þangað fyrir innan dyrnar sem ekki er raðað eftir neinum kerfi. Þær bara eru þarna og maður verður bara að grúska. Tveir sambýlismenn sem reka þetta í gömlu húsi sem þeir eru búnir að gera upp, og hafa opið þrisvar í viku í nokkra klukkutíma. Ótrúlega sætt, öðruvísi og skemmtilegt.

Um daginn rákumst við Moy hin sænska sem býr hér fyrir neðan mig svo á opinn bílskúr við götuna sem liggur inn í þorpið, en þar selur fullorðinn maður vínin sem bændurnir hér í kring rækta. Sérstaklega Moscatel-vín sem er ekki ólíkt Sherry. Er ekki hrifin af því en það sem er skemmtilegt er að hann býður fólki  inn í skúrinn til að fá að smakka úr tunnunum hans. Kostar ekki krónu, karlinn ræðinn og þetta er bara skemmtilegt.

 Í gær fór ég svo í hádeginu í Tapas til Rick og Helen sem reka litla kaffistofu "la Tereza" þar sem mér finnst alltaf gaman að koma, enda Rick listakokkur. Ég elska að setjast í litla bakgarðinn þeirra sem snýr upp í hæðirnar. Þar er miklu rólegra en á torginu og stundum er bara gott að vera einn með sjálfum sér í kyrrðinni þar. Þau eru líka yndisleg. Þegar ég kom þar í gær í hádeginu, pantaði ég tapas og hélt út í bakgarðinn. Þar var fyrir hópur af fólki að mála stillimyndir af ávöxum og grænmeti sem prýddu borðin. Það stóð sem sagt yfir vatnslitanámskeið á kaffihúsinu fyrir aðflutta íbúa hér. Ég naut þess að sitja þar nokkra stund og fylgdist með, fékk mér besta kaffið sem finnst í bænum, las svo Euro-weekly blaðið í rólegheitum áður en ég hélt heim. Á leiðinni rakst ég á algenga sjón hér í götunni þegar sólin skín. Þá bera gamalmennin sem búa hér stólana sína út á götu og spjalla saman. Sæi það tæpast gerast heima.   

Það er hreint ótrúlegt hvað hægt er að rekast á margt skrýtið og skemmtilegt í ekki stærra plássi. Allt svo ólíkt því sem maður sér heima. Og ég elska þetta líf hérna.

 Sólskin í Calle Andazalia

Litli morgunverðarstaðurinnséð inn í litla morgunverðarstaðinnVel falinn bóksalan


Engisprettur, maurar og leðurblökur

Á undanförnum þremur dögum hefur margt breyst hér. Hitinn hækkaði skyndilega fyrir um fjórum dögum og þar með hef ég orðið meira vör við dýralífið hér. Að minnsta kosti smádýralífið GetLost. Í fyrrinótt vaknaði ég og ákvað að gang hér út á svalir. Á móti mér kom heitur vindur í stað kuldans sem verið hefur. Og ég hélt í fyrstu að ég hefði séð gráleit stór næturfiðrildi flögra í kringum mig en varð fljótlega ljóst að þetta voru leðurblökur. Já, nice. Í gærkvöldi áttaði ég mig svo á að það hafði nýtt hljóð bæst við hanagalið og hundagánna sem heyrist gjarnan kvölds og morgna. Engispretturnar eru komnar á stjá. Finnst það hljóð reyndar ósköp notalegt þegar allt er orðið kyrrt. Eitraði í fyrsta skipti undir útidyrnar í gær fyrir maurum sem líka eru farnir að sjást. Finnst þeir ekki alveg eins notalegir. Á torginu hefur líka útlitið svolítið breyst. Fram að þessu hefur fólk farið þangað til að sitja í ylnum af sólinni en nú er búið að setja upp sólhlífar svo fólk geti setið í skugganum.

Annars hefur allt gengið sinn vanagang undanfarið og ég eytt tímanum oftast nær uppi á svölum fyrripartinn og við tölvuna seinni partinn. Co og Eddie buðu mér með sér á jam-session á kaffihúsi hér niðri á strönd á dögunum sem var mjög skemmtilegt. Gamlir popparar að spila saman. Og Sandra, sú sem steig á hundaskítinn kom til mín í gærdag og sat hér á spjalli í tvo tíma. Hef gaman af þeirri gellu. Var búin að verða mér út um de-caf sem betur fer. En auðvitað þurfti hún þá að biðja um mjólk og sykur sem ég átti ekki til. Og þá lét hún svolitla vanþóknum í ljós en sagði svo dálítið mæðulega: "Ég held ég sé kannske með sykur hérna í töskunni minni". Svo dróg hún upp úr pússinu sykur í litlu veitingahúsbréfi eins og hún væri að gera mér alveg sérstakan greiða. Það hýrnaði þó svolítið yfir henni þegar ég bauð henni fulla skál af jarðarberjum.

 Í gærmorgun fór ég mína venjulegu ferð á bændamarkaðinn að að kaupa ávexti og grænmeti. Get alveg tapað mér þar. Allt svo girnilegt. Fór svo í gærkveldi í tilefni af Andaluciudeginum á flamencosýningu í Casa mayor hér í þorpinu og tónleika með ekta spánskri alþýðutónlist þar sem samankomnir voru ungir og aldnir innfæddir og aðfluttir þorpsbúar. Mjög gaman.

'a skallapopparatónleikummeð Co og Eddiejammá bændamarkaðnumhnetur og möndlur


sunnudagar

Sú bleikaSunnudagar eru öðruvísi hér en aðrir dagar. Þá er allt lokað hér nema flest kaffihúsin. Á sunnudagsmorgun lá ég undir sæng og hlustaði á kyrrðina úti. Þorpið var ekki vaknað. Kannske bara ég og haninn auðvitað hérna handan við gilið sem mættur er á vaktina og finnst hann greinilega ómissandi á helgidögum sem aðra daga. Meira að segja hundarnir sem gelta hér allan sólarhringinn eru rólegir á sunndögum, því þá eru húsbændurnir heima og þeir fá að sofa inni. Fyrsta lífsmarkið hér í kring var svo þegar nágrannakonan mín fór að syngja hástöfum eins og hún gerir jafnan þegar hún hengir upp þvottinn sinn eða þrífur húsið. Og þetta finnst mér alveg sérlega notalegt. Undir þessum tvísöng hanans og hennar fór ég á fætur, fékk mér að borða og lagaði mér kaffi sem ég rölti með upp á efstu svalir og settist í morgunsólina. Mín uppáhaldsstund dagsins. Og þar sem ég sat þar og lofaði þetta dásamlega líf heyrði ég hvar sú gamla á bleika sloppnum í grænu buxunum var mætt, móð og másandi "madre mia", settist á bekkinn og byrjaði að skipta sér að Toni hinni svarklæddu sem var að taka morgungönguna með göngugrindinni. það er önnur skemmtun sem ég vil helst ekki missa af. Greip myndavélina og tók eina til minningar.

Hafði mælt mér mót við breska konu sem búið hefur hérna í tuttugu ár og ætlaði að selja mér bækling sem mig vantaði. Við hittumst í morgunkaffi á torginu og spjölluðum í tvo tíma. Hún er á áttræðisaldri (eins og flest fólkið hérna) en alger nagli. Hún er áhugaljósmyndari og dreymir enn um að gerast fréttaljósmyndari í Palestínu. Sennilega er það nú of seint en hún er samt að undirbúa ferð til Palestínu í sumar. Ein. Vill ekki hafa gamla með sér því hún segir að hann hafi ekkert auga fyrir myndefni og myndi bara tefja sig. Eina vandamálið er að hún er hálf hölt og þarf að ganga með staf því hún rann á hundaskít á Gíbraltar í fyrra, datt og braut sig,  og hefur ekki jafnað sig nægilega vel enn segir hún. Hún sagði að sér leiddist að vera með fólki en hótaði um leið að heimsækja mig þann 29. feb. því þá á hún erindi í götuna. Eins gott ég muni sjálf eftir því og eigi de-caff kaffi því prímadonnunni er ekki sama hvað hún lætur ofan í sig.

Góður morgun, eftirmiðdagur við tölvuna en tók hlé til að hlusta á skottu mína í viðtali hjá Hemma á Bylgjunni. Þegar honum var að ljúka heyrði ég hávaða neðan úr götunni og þá voru konur úr þorpinu að ganga skrúðgöngu syngjandi og með tamborínur framhjá húsinu mínu á leið niður í bæ. Sennilega í tengslum við karnivalið sem hefur verið í gangi hér um helgina. karnival-kvennagangaStilltu sér upp fyrir framan dyrnar hjá mér.

 

 

 

 

 

 


rólegir dagar

Undanfarnir dagar hafa verið rólegir. Hér hefur verið kalt en gott inn á milli. Ég hef setið við skriftir ásamt því að hitta norska kennara sem eru reyndar farnir heim núna. Skrugguskemmtilegar kellur sem vilja að ég sláist í hópinn með þeim og gangi huta af Jakobsstígnum í haust. Kemst þó sennilega ekki. Víkkaði enn meira sjóndeildarhringinn og fór á dögunum til Nerja til að kaupa afmælisgjöf handa Sunnu, sem er afar heillandi bær. Strandvíkin þar er mjög falleg og bærinn heimsborgaralegur en um leið vinalegur. Set myndir hér með af Nerja. Þegar ég sat þar á kaffihúsi og var að bíða eftir strætó settist fullorðinn maður rétt hjá mér og hvíslaði yfir til mín; "Do you speak english"? Ég kinkaði kolli og þá sagði hann "Well, get your ass over here, I have to ask you something". Kom á daginn að hann var í bænum í fyrsta sinn með vini sínum og þeir voru kanadískir kennarar á eftirlaunum og leita sér að sumarhúsi í Andaluciu. Sá kom fljótlega og við sátum þrjú og skemmtum okkur á spjalli í hálftíma eða þar til strætóinn minn kom. Skemmtilegt að hitta svona vænt fólk svona óvænt. Við skiptumst á e-mail og létum taka af okkur mynd saman sem ég á eftir að fá senda.  

Setti mig í samband við einn vinnufélaga minn af menntavísindasviði sem býr í Granada sem stendur og við munum væntanlega hittast eitthvað þegar ég kem til Granada næst. Síðasta kvöldið sem norsku kellurnar voru hér fórum við út að borða saman á kínverskan veitingastað hérna niðri við strönd sem var mjög skemmtilegt kvöld. Allt saman pensjonistar sem eru að ferðast saman út um allan heim. Set hér mynd af því líka.

Í dag og í gær hefur svo verið karnival hér í bænum sem ég hlakkaði til að sjá en það var ekki merkilegt. Og aldrei áður hef ég hlustað á kór þar sem ekki nokkur maður heldur lagi. Í dag var svo furðufatadagur fyrir börnin sem var mjög skemmtilegt að fylgjast með.

Hér varð slys á torginu fyrir fáeinum dögum en þá keyrði sendiferðabíll inn í þvöguna sem sat á útikaffihúsinu sem ég sit venjulega á. hann keyrði niður fjóra Breta og hundgrey sem fótbrotnaði. Tveir Bretanna slösuðust nokkuð mikið en hinir tveir sluppu betur. Fegin að ég var ekki þar.

Co og Eddie sem búa hér fyrir neðan mig buðu mér að slást í för með þeim til Malaga einhverntíma í næstu viku sem ég ætla að þiggja.

 Aðal ströndin í NerjaNerja fyrir ofan víkinainngangurinn að kínverskanorskir, sænskir og íslendingur

 

 

 

einn vagnin á götunni í dagsamkomutjald reist á toginu fyrir karnivaliðBörnin í búningumKarnivalið í undirbúningi


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband