Farin!

                                                  Nákvæmlega. Ég er farin! Reyndar bara í huganum en það er góður staður til að hefja ferðina sem mig hefur dreymt um að fara í mörg ár. Að ganga el Camino de Santiago de Compostela eða Jakobsstíginn frá St. Jean Pi de Port þorpinu í suður-Frakklandi, yfir hæðir Pýrenea-fjallgarðsins  og eftir endilöngum Norður-Spáni til Santiago de Compostela. Sjöhundruð og áttatíu kílómetra. Reyndar heilir níu  mánuðir þangað til ég fer. Þarf að undirbúa mig vel og koma mér í gott gönguform. Stebbi horfir á mig eins og ég sé ekki með öllum mjalla og spyr hvort það sé ekki hægt að keyra þetta.  Segist verða þreyttur í fótunum bara á að heyra þetta. Og til hvers að labba alla þessa leið???  Er ekki hægt að fara styttra???  Stebbi heldur að ég vilji bara ganga  ákveðna vegalengd og ná á tiltekinn áfangastað til að reyna mig. En ég hef fyrst og fremst  áhuga á að vera á sjálfri leiðinni. Finna frelsið sem fylgir því að láta ráðast hvað gerist og hverjir verða  á vegi manns, - mæta því með opnum huga, takast á við sjálfan sig og ögrandi aðstæður -og njóta sigranna. Góðum vini mínum fannst lítið til koma þegar ég sagði honum frá. Sagði að þetta væri túristaleið, full af fólki sem honum finndist vægast sagt óspennandi. Hann kysi óspillta náttúru í friði fyrir fólki og honum finndist hvort eð er hann sjálfur langskemmtilegasti maður sem hann þekkti. Og þar sem hann er ekki sérlega gefinn fyrir að hitta fólk verða sennilega ekki margir til að mótmæla því.

 Sjálf lít ég svo á að fólk sé hluti af náttúrunni og að innan þeirrar flóru sé hægt að finna bæði berangur og gróin lönd.  Það útsýni sem maður fær á veröldina við kynni af alls kyns fólki er í mínum huga síst verra en af hæstu fjöllum. Og skemmtilegast ef hægt er að njóta hvors tveggja í senn. Mér finnst fólk almennt áhugavert og öllu jafna vænt um það. Og samneyti fólks á el Camino er öðruvísi en annars staðar er mér sagt. Hver og einn hefur sínar ástæður fyrir för sinni og  ber sinn eigin andlega farangur. Og allir vita það. Og virða það. Jafnvel deila því og taka þannig  þátt í för hvers annars. 

Svo á meðan vinur minn skemmtir sér við að tala við sjálfan sig ætla ég að njóta spænskrar sveitasælu og sitja sárfætt og sæl um síðdegi á heimilislegum útikaffihúsum í lítt þekktum þorpum Norður-Spánar „peoplewatching" og jafnvel „mingling." En þangað til mun ég sætta mig við að ferðast þangað á netinu, undirbúa töltið með gönguferðum í garranum hér heima, ylja mér á  baskalands- sól í flösku á köldum vetrarkvöldum og láta mig dreyma. 


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband