el Camino - nei hættu nú.

Gat nú verið. Datt á skíðum rétt eftir áramót og sleit í sundur fremra krossband í hné og skaddaði liðþófa. Þar með dró ég þá ályktun að el Camino væri úr sögunni. Að ganga allt að 30 km á dag samfellt í um 40 daga hljómaði ekki lengur eins vel og áður. Hljómaði reyndar útilokað. Eftir mánuði af sjálfsvorkun og innilokun í vetrarríki þessa ofmetna skers, hitti ég loks engil af manni sem kann að gera krossbandsaðgerðir. Það er semsagt einn svoleiðis ennþá hér. Þar sem heimilislæknirinn minn hafði sagt mér að slíkar aðgerðir væru sjaldnast gerðar á fólki eftir fimmtugt mætti ég englinum í ham. Eins of úfinn broddgöltur spurði ég hann hvort þetta væri virkilega rétt. Nei, ekki endilega. þ<ð færi eftir ýmsu. Og eftir þreifingar, teygjur og spjall tjáði hann mér að ef ég vildi gæti hann gert á mér aðgerð en að aðgerð væri alls ekki efst á blaði fyrir fólk eins og mig. Ég væri einfaldlega of vel á mig komin. Fegin og rígmontin með niðurstöðuna fór ég heim með fyrirmæli um að æfa lærvöðvana til að halda stöðugleika á hnénu og satt að segja get ég hugsað mér nokkrar áhugaverðar leiðir til að gera það. Áður en ég yfirgaf læknastofuna spurði engillinn hvort ég væri mikið á háum hælum og ég svaraði því játandi og að það væri ekki að fara að breytast. Honum fannst það fyndið.Mér var alvara. Ég má sem sagt gera allt sem ég treysti mér til og langar að gera svo fremi að ég gæti þess að halda vöðvunum í formi, nema þá helst að hlaupa niður í móti. Og ætli ég að halda hælunum verð ég að æfa bolvöðvana líka til að verja mjóbakið, ekki síst ef ég ætla að bera tíu prósent af líkamsþyngd minni á veginum á bakinu. Til að fyrirbyggja misskilning ætla ég ekki veginn á hælum. Vegurinn er sem sagt ennþá inni en búið að fresta för þar til að ári. Stefni að því að vera þá í fantaformi en er búin að komast að því að slíkar áætlanir hafa tilhneigingu til að breytast. Nú bíð ég eftir því að þessari árans hálku, snjó og kulda linni og ég geti farið að æfa mig á Úlfarsfellinu með boxerinn minn sem fylgir mér eins og skugginn ef ég er með harðfisk í vasanum. Reyndar búið að spá kolvitlausu veðri í kvöld og nótt (hver er hissa) og Stebbi farinn upp á Esjumela að strappa niður húseiningar. Á meðan sit ég inni í hlýjunni við tölvuna og les mér til um „bed bugs“ og æfi mína takmörkuðu spænsku sem ég mun bæta til muna í spænskuskóla á komandi sumri í stað þess að ganga veginn. það mun væntanlega koma sér vel að ári.

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband