el Camino 2. Ævintýri á gönguför

 El Camino 2.

 „If you think adventure is dangerous, try rutine, its lethal". (Paulo Coelho).

Held að Coelho hafi rétt fyrir sér. Skrýtnar og skemmtilegar venjur í lífi fólks geta gert það bæði innihaldsríkara og fallegra, en líf sem hinsvegar stjórnast af vana er í mínum huga ekki einasta óheilsusamlegt heldur beinlínis lífshættulegt. Eða eins og Jón Björnsson vitnar til í bók sinni  Á Jakobsvegi  þegar hann lýsir svipuðum þönkum;  „ Menn verða ekki lengur úti milli bæja, því menn verða inni milli veggja". Orð að sönnu. Fátt hrellir mig jafnmikið og tilhugsunin um líf sem stjórnast af vana. Ég held að gegn honum sé besta vörnin að fara reglulega burt úr hlaðinu heima hjá sér og reyna eitthvað alveg nýtt. Eitthvað sem ögrar hugmyndum okkar um okkur sjálf og lífið yfirleitt, ekki síst hrokafullum hugmyndum um að allt sé best á Fróni. Einhver spekingurinn sagði að ferðalög væru eins og ástin að því leyti að á meðan við erum ástfangin værum við vökulli, hugrakkari og móttækilegri fyrir því að taka breytingum. Þannig held ég að best sé líka að lifa - og eldast. Með skilningarvitin þanin, forvitnina í hámarki, þor til að gera það sem manni finnst áhugavert og dreymir um og æðruleysi gagnvart þeim breytingum sem það kann að hafa í för með sér. Stebbi minn dregur ekki úr mér þrátt fyrir að finnast  þessi 780 km sjálfspína á stígnum alveg glórulaus og reyni varlega að stinga upp á því aftur að keyra mig. Og eins og honum einum er lagið sagði hann svo á dögunum „OK, fyrst ég get ekki talið þig af þessu er eins gott að taka þátt í þessu. Ég kem með þér síðustu 100 kílómetrana." Þannig var það ákveðið að hann fljúgi til London og þaðan til Santiago og hitti mig í bænum Sarria á síðustu dögum næsta júnímánaðar þaðan sem við töltum svo síðasta spölinn til hinnar helgu borgar Santiago de Compostela. Gulrótin fyrir Stebba er loforð um tveggja vikna letilíf, sól og sælu  í kjölfarið suður í Andalúsíu, berfættur og bakpokalaus og  í friði fyrir sífelldri óþreyjunni í mér!  Líklega hef ég lofað upp í ermina á mér.

Já, ég er heppið blóm. Ég á nefnilega líka einstakan  tengdason sem nær þessu alveg. Og eftir smá spjall hér í Bjargó ákváðum við að hann flygi  með mér út og fylgdi mér fyrstu dagleiðina frá Jean Pied de Port í Frakklandi til Ronchesvalles á Spáni. Svo færi hann til baka heim en ég héldi áfram. Þessi dagleið liggur um óbyggðir  vestarlega í Pýrenea-fjallgarðinum og er um 27 kílómetrar með umtalsverðri hækkun þar sem allra veðra er von árið um kring og auðvelt er að villast. Þetta er eini hluti vegarins  sem mér líst ekki sérlega vel á að fara ein. Það er bæði falleg og notaleg tilhugsun að þetta yndi fylgi mér úr hlaði. Sakar ekki að hann er vanur bootcamp-þjálfari og getur rekið mig áfram ef ég er eitthvað að væla. Vonandi gengur þetta allt eftir. Get ekki ímyndað mér betri leið til að ramma þennan labbitúr inn í báða enda.  

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband